Ár er nú síðan verðhækkanir á íbúðarhúsnæði stöðvuðust og er verðið í dag svipað og var þá. Á sama tíma hefur vísitala byggingakostnaðar hækkað um 23% og er því raunlækkun á verði íbúðarhúsnæðis um 20% á þessu tímabili.

Hækkanir af völdum veikningar íslensku krónunnar eru enn ekki komnar fram, nema að litlu leyti og er líklegt að enn vanti 40-50% upp á það. Sú breyting mun hækka byggingavísitöluna um u.þ.b. 15% þegar hún er af fullu komin fram. Sé reiknað með óbreyttu gengi krónunnar og hóflegri hækkun á innanlandskostnaði gæti 25% hækkun byggingavísitölunnar orðið niðurstaðan fyrir næstu 12 mánuði.

Engar vísbendingar eru um að fasteignaverð muni hækka á þessu tímabili, þvert á móti. Standi það hins vegar í stað ásamt framannefndum forsendum væri aftur um að ræða 20% raunlækkun á íbúðaverði á næsta ári, eða alls 36% á tveimur árum.

Seðlabankinn spáir í Peningamálum í dag raunlækkun upp á 50% á sama tímabili.

 

Þeir sem ekki eiga sjóði til að fjármagna byggingar næstu mánuði og ár ættu að fara varlega í fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Það mun lækka í verði frá því sem nú er og ekki standa undir byggingakostnaði á næstunni, hvað þá þeim fjármagnskostnaði sem boðið er upp á.