Í „Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030“ frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir svo m.a.:
„Áætlað er að mannvirkjageirinn sé ábyrgur fyrir um 40% af heildarkolefnislosun á heimsvísu. Þetta hlutfall sýnir greinilega að byggingariðnaðurinn er mikilvægur hlekkur í að tryggja sjálfbærni kolefnislosunar komandi kynslóða.“
Við hjá Hannarr ehf. erum sammála þessu og höfum hannað kerfi sem reiknar kolefnislosun byggingarefna þeirra bygginga sem eru reiknuð í BYGG-kerfinu, bæði við nýbyggingar og viðhald. Að vita það er ein af meginforsendum þess að draga megi úr umhverfisáhrifum greinarinnar. Samanlagt er þetta um 2/3 af allri kolefnislosun bygginga.
Nýbyggingar á árinu 2020 voru 564.000 m2 samkvæmt „Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 1. Hluta.“ Þar segir að kolefnislosun byggingarefna þessara bygginga hafi verið 162.472 tonn eða 288 kg CO2/m2 og að það sé að meðaltali 45% af losun þeirra. Alls er þá samkvæmt þessu kolefnislosun nýbygginga hér á landi um 360.000 tonn á ári.
Þegar viðhaldi þessara húsa er bætt við þá bætast við um 170.000 tonn sem gerir þá alls 530.000 tonn.
Mismunandi gerðir húsa losa mismikið kolefni eða allt frá 233 upp í 370 kg CO2/m2 miðað við módelin í BYGG-kerfinu sem eru nú 22. Það er auðvelt að sjá á framansögðu hversu stór þáttur kolefnislosun bygginga er af heildarlosuninni, og að það má auðveldlega draga úr losuninni svo að um muni. Tíu prósent minnkun losunar bygginga myndi þýða um 4% minnkun losunar landsins í heild sé miðað við að byggingar losi um 40% af heildarlosuninni.
Eitt lítið dæmi má t.d. nefna sem er að ef skipt er út timburklæðningu útveggja einbýlishúss að utan á móti bárujárni þá eykst losun hússins í heild um 8-10% og öfugt.
Á meðan ekki er tekið á kolefnislosuninni þá minnkar hún ekki. Þeir sem byggja horfa í kostnaðinn en ekki í kolefnislosun hússins og ganga má út frá að þeir sem kaupi eignina spyrja ekki um kolefnislosunina.
Þeir sem nota BYGG-kerfið hafa undanfarið ár getað séð kolefnislosun hvers efnis sem þeir hafa notað í byggingar sínar og því getað skoðað hvað og hvar þeir geta dregið úr losuninni með því að velja annað efni en þeir ætluðu. Um leið hafa þeir getað séð hverju það hefði breytt varðandi byggingarkostnaðinn.
Hafa þeir gert það ? Líklega ekki, þar sem Það hefur vantað hvatann til að gera það, eða kröfur um að það væri gert. Við höfum þannig tapað úr einu ári nú þegar sem við hefðum getað nýtt í því markmiði að draga umtalsvert úr kolefnislosun landsins.
Til að ná markmiðunum um minnkun á kolefnislosun bygginga í landinu þá bendum við á að nú eru skráðir notendur BYGG-kerfisins um 475 og verða á næsta ári 5-600. Verkin sem eru unnin í BYGG-kerfinu verða um 1.700 í ár, en þeim hefur fjölgað um 20% á ári að undanförnu. Þessi fjöldi verka er meiri en sá fjöldi húsa sem byggður er á landinu nú. Það þýðir að BYGG-kerfið er hjálpartæki sem nota má til að ná strax til þessa fjölda byggjenda og og flýta með því þeim árangri í kolefnisminnkun sem þjóðin vill, um einhver ár.
Ekki er ólíklegt að þetta sé besta leiðin til að ná miklum árangri við að draga úr kolefnislosuninni á skömmum tíma.
Töpum ekki öðru ári í þeirri viðleitni.