SKORTUR Á UPPLÝSINGUM
Skortur á íbúðum er enn mikið í umræðunni og hefur verið það mörg undanfarin ár og ekki að ástæðulausu. Þessa dagana eru að koma fram opinberar tölur um hversu mikið var byggt af íbúðarhúsnæði árið 2017. Þetta er næstum mánuði seinna en á síðasta ári og er ástæða til að spyrja hvers vegna svo sé? Upplýsingar um þetta ættu að liggja fyrir jafnóðum, t.d. mánaðarlega, sem ætti ekki að vera erfitt á þeim tímum tækninnar sem við lifum nú á. Þessi málaflokkur er einn stærsti og mannfrekasti málaflokkur landsins og varla hjálpar það við stjórnun hans að byggja á ágiskuðum upplýsingum um þróun hans.
SKORTUR Á ÍBÚÐUM
Á árinu 2017 var byrjað á byggingu 2836 íbúðum á landinu, sem er rúmlega það sem þarf til að halda í horfinu í venjulegu árferði. Hins vegar var lokið við 1768 íbúðir sem er minna en árleg þörf er og óx því íbúðaskorturinn á landinu enn eitt árið, í stað þess að minnka.
Fyrir tveimur árum kynnti Hannarr ehf. þá niðurstöðu að þá vantaði 4.000 íbúðir á landinu og fyrir ári að skorturinn væri kominn yfir 5.000 íbúðir.
Mat fyrirtækisins var að árleg þörf fyrir nýjar íbúðir á landinu væri rúmlega 2000 íbúðir á ári (2300) og er mat Hannarrs því að skorturinn nú sé á bilinu 6000 – 7000 íbúðir. Þær íbúðir sem eru í byggingu nú draga lítið úr þeim skorti.
HLUTUR REYKJAVÍKURBORGAR Í ÍBÚÐARBYGGINGUM UNDANFARIÐ
Árið 2007 voru íbúðir í Reykjavík 49.190 og árið 2017 voru þær 52.115, samkvæmt Þjóðskrá. Sem hlutfalli af heildarfjölda íbúða á landinu hafði þeim fækkað í Reykjavík úr 39,1% í 37,7% á þessum árum. Hefði hlutfallið haldist óbreytt þá væru nú tæplega 5.000 fleiri íbúðir í Reykjavík. Þetta slagar hátt upp í þann íbúðafjölda sem við teljum skortinn vera í heild í landinu.
Þetta hlutfall var um 42% fram að aldamótunum síðustu og ef miðað er við það hlutfall þá ættu íbúðir í Reykjavík að vera 6.500 fleiri og væri þá íbúðaskorturinn enginn í landinu.
HVERS VEGNA BYGGJA REYKVÍKINGAR EKKI ?
Þekkt er að skortur veldur verðhækkun á því sem skortir. Reykjavíkurborg hefur mörg undanfarin ár látið bjóða í þær lóðir sem hún úthlutar og með litlu lóðarframboði fær hún hátt verð fyrir þær lóðir sem úthlutað er. Auðvitað gæti borgin boðið fleiri lóðir á lægra verði og fengið þannig sama eða hærri upphæð í heild fyrir lóðirnar, en það hefur ekki verið gert.
Einnig er þekkt að lóðir á eftirsóttum svæðum seljast á hærra verði en t.d. í jöðrum byggðar. Þetta hefur borgin einnig nýtt sér og býður upp á þéttingu byggðar í meiri mæli en dæmi eru um áður. Þetta færir borginni viðbótartekjur, en dregur jafnframt úr framboðinu á íbúðum, þar sem tímafrekara er að byggja á þannig svæðum.
Með litlu framboði af lóðum og þéttingu byggðar úr hófi stuðlar borgin þannig að háu fasteignaverði í borginni og hljótum við að spyrja hvort það hafi verið markmiðið stjórnenda borgarinnar.
Nú er svo komið að fasteignaverðið í Reykjavík er að hrekja það fólk úr borginni sem vill eignast íbúð, ekki bara til næstu sveirafélaga heldur til staða sem eru lengra í burtu. Þetta hefur auðvitað í för með sér mikla umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu sem þýðir að þetta fólk þarf að lengja vinnudaginn um 1-2 klst með tilheyrandi mengun og slit á gatnakefi að svæðinu, að óþörfu og örugglega ekki þeim til ánægju sem keyra.
Þetta er því vandamál sem Reykjavíkurborg ber höfuðábyrgð á, eins og á íbúðaskortinum sjálfum og ætti það einnig að ræðast á vettvangi umferðar, gatnagerðar og mengunar. Þetta er auðvitað þvert á þau markmið sem nú eru uppi um minni mengun, minni notkun bíla og minni notkun jarðefnaeldneytis.
SKIPULAG BYGGINGARMÁLA Í LANDINU
Ef Reykjavík vill vera höfuðborg landsins þá verður hún að líta þannig á sig og taka á sig þá ábyrgð og þær skyldur sem því fylgja. Ekki er ásættanlegt að hún líti á sig sem eyland óháð öðrum hlutum landsins og geti unnið gegn hagsmunum heildarinnar í landinu eins og hún hefur gert í þessum málum. Skipulagsmálin í Reykjavík verða að vinnast með öðrum svæðum landsins og með sameiginlega hagsmuni landsins í huga.
HVERJIR EIGA AÐ BYGGJA OG REKA FASTEIGNIR OG FYRIR HVERJA
Þegar upp kemur ástand eins og hér er lýst þá poppa upp aðilar sem hafa allt annað hlutverk en að byggja og reka íbúðir. Nefna má t.d. stéttarfélög og lífeyrissjóði sem stofna eða leggja fé í fasteignafélög og byggingarfélög. Þá má nefna þá áráttu stjórnenda byggingarmála að úthluta lóðum fyrir fagstéttir fólks eða úthluta lóðum í samræmi við aldur fólks.
Fyrirkomulagið kallar á spillingu þar sem ríkjandi eftirspurnin er meiri en framboð gæðanna. Það hefur í för með sér mikinn kostnað, t.d. vegna niðurgreiðslu á vöxtum til útvalinna og mikinn kostnað við að stjórna fyrirkomulaginu. Allir stjórnendurnir þurfa t.d. sinn hlut.
Og hvers eiga þeir að gjalda sem ekki eru t.d. í ASÍ, eða ekki eru 60 ára og eldri. Þeir borga brúsann en fá ekkert í staðinn.
Þetta nefnist forræðishyggja er það ekki ?