Starfsmat
Starfsmat er aðferð til að meta störf á vinnustað, í starfsgreinum eða á vinnumarkaði. Starfsmat er notað til að koma á og halda við eðlilegu hlutfalli launa. Það kemur hins vegar ekki í stað samninga milli launþega og vinnuveitenda.
Starfsmatið beinist ætíð að starfinu óháð þeim starfsmanni sem útfærir það á hverjum tíma.
1. Hvers vegna starfsmat ?
Stöðugt er verið að meta störf, meira og minna kerfisbundið. Þetta kemur meðal annars fram í ýmsum álögum svo sem hávaða- og óþrifaálagi í iðnaði og álagi vegna ábyrgðar við stjórnunarstörf. Sjaldnast er þó um að ræða að fyrir liggi heildarmat þannig að tekið sé tillit til allra þátta starfsins og hlutfalli þess til annarra starfa og eru því launahlutföll oft umdeilanleg.
Með starfsmati eru öll viðkomandi störf metin kerfisbundið hvert til annars óháð starfsmanni og óháð kyni. Starfsmat má gera óháð launum og nota síðan við samningsgerð og starfsmat má gera innan ramma heildarlaunagreiðslna viðkomandi aðila þannig að það nái eingöngu til innbyrðis hlutfalls launa viðkomandi starfsfólks.
Við breytingu á starfinu er auðvelt að endurmeta það til launa, ef starfsmati hefur verið komið á.
2. Kostir starfsmats
Eðlilegt launahlutfall þeirra starfa sem matið nær til.
Uppgötvun og leiðrétting á óréttlátum launum.
Auðveldar mannaráðningar og að setja nýliða inn í starf.
Gefur upp launahlutfall án tillit til kyns.
Hvetur starfsmenn til að auka við kunnáttu sína vegna möguleika þeirra á að flytjast í betra starf.
Hvetur til bóta á starfsaðstöðu.
3. Val á matskerfi
Aðilar vinnumarkaðarins hafa gert með sér samkomulag um það hvernig staðið skuli að því að koma á starfsmati og er það sá rammi sem aðilar halda sig við þegar komið er á starfsmati. Slíkan ramma má finna um fleiri skyld mál svo sem við upptöku árangurslaunakerfa og við vinnurannsóknir. Það er nauðsynlegt að hafa slíkar leikreglur við vinnu af þessu tagi.
Matsþættir eru ákveðnir annars vegar út frá atriðum sem koma fyrir við störf almennt og eru talin hafa áhrif á árangur og hins vegar út frá þeim vinnuskilyrðum sem starfsmanninum er boðið upp á. Fyrsta skrefið við að koma á starfsmati er að ákveða hver þessi atriði eru og hvaða vægi þau skuli hafa. Einnig eru til staðlaðar útfærslur að slíku mati og býður Hannarr m.a. upp á slíka útfærslu.