Á árinu 2005 voru seldar um það bil 190 íbúðir á viku að jafnaði á landinu. Þessi fjöldi fór niður í rúmar 40 á árinu 2009 að meðaltali, en er það sem af er þessu ári að meðaltali um 90 og hefur farið yfir 100 síðustu vikur.

 

Sé reynt að túlka þessar tölur má sjá að salan er nú um helmingur þess sem var á árinu 2005 og var fjöldi viðskipta svipaður árin 2006 og 2007. Hafi þetta verið eðlilegur fjöldi viðskipta, ætti þeim að fjölga um helming frá því sem þau eru nú og má segja að þróunin sé í þá átt, þótt langt sé í land með að ná þeim fjölda.

 

Rétt er að hafa í huga þegar þetta er skoðað að mikið var byggt á árunum 2005 til 2007, langt umfram meðaltal langs tíma á undan, sem auðvitað var vegna mikillar eftirspurnar sem kom upp í þeirri bólu sem þá var að ganga yfir íslenskt þjóðfélag. Þannig er ekki líklegt að viðskipti með fasteignir verði jafnmörg og þá var, en hins vegar er erfitt að fastsetja einhvern hæfilegan fjölda viðskipta af þessu tagi.