Mjög skrýtin umræða hefur að undanförnu verið um húsnæðismál okkar íslendinga. Í ársbyrjun var hér á þessum stað, grein um stöðu húsnæðismálanna, þörf á nýbyggingum nú og á næstunni, verð og fjármögnun þeirra.
Þörf á nýbyggingum
Sé sagan yfir nýbyggingar skoðuð þá er líklega orðin vöntun á nýjum íbúðum á bilinu 2-3000 íbúðir á landinu. Sá lager sem hafði orðið til fyrir kreppu var uppurinn á árabilinu 2011 til 2012 og hefur magn nýbygginga síðan verið u.þ.b. helmingur af líklegri þörf.
Verð nýbygginga
Í fjölmiðlum hefur því að undanförnu verið haldið fram að verð á húsnæði hafi verið og sé að hækka mikið. Séu tölur Þjóðskrár yfir vísitölu íbúðaverðs skoðaðar þá segja þær að verðið hafi hækkað um 4,6% frá des. 2013 og 18,2% frá des. 2011. Vísitala launa hefur samkvæmt Hagstofunni hækkað á sama tíma um 3,6% og 14,9% og vísitala byggingarkostnaðar um 0,6% og 7,5%. Verð íbúða er þannig að hækka nokkuð umfram verðlag almennt og sérstaka athygli vekur hvað byggingarvísitalan breytist lítið á þessu tímabili.
Fjármögnun nýbygginga
Töluvert er kvartað yfir því að einstaklingar fái neitun um lán til kaupa á íbúðum á þeirri forsendu að þeir standist ekki greiðslumat og að lán megi ekki vera hærri en 80% af íbúðarverði. Þetta er öfugt við það sem var fyrir kreppu, en þá var boðið upp á lán sem voru allt að 100% af þáverandi íbúðarverði. Með þessu háa lánshlutfalli á bólutímum urðu lánin of há miðað við eðlilegt ástand og með hjálp verðtryggingarinnar voru margir af þeim sem keyptu íbúðir á þeim tíma gerðir eignalausir. Þeir sem áttu inneignir í lífeyrissjóðum áttu þær eignir þó áfram og nú eru lífeyrissjóðirnir, sem lánuðu meðal annars eigendum sínum lán með verðtryggingu, eins og aðrar lánastofnanir, að kaupa þessar eignir og byggja nýjar íbúðir til að leigja þessum sömu aðilum og öðrum.
Fjármögnun nýrra íbúða virðist nú vera að færast frá einstaklingum sem byggt hafa sínar íbúðir til nota fyrir sig og fjölskyldu sína, yfir til fyrirtækja í eigu banka og lífeyrissjóða sem sitja þannig beggja vegna borðs, þ.e. fjármagna þessi fyrirtæki sín með vinstri hendinni og lána til einstaklinga, í samkeppni við þau, með hægri hendinni. Hvað ætli hvor þessara aðila borgi í vexti ?
Er þetta framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála á Íslandi ?