Þessi liður inniheldur:
Leiðbeiningar fyrir undirliði þessa svæðis.
Skráning byggingarstjóra, eyðublað
Byggingarstjóraskipti, eyðublað
Gæðakerfi byggingarstjóra, eyðublað
Dagbók byggingarstjóra, eyðublað
Gögn, form fyrir vistun gagna sem tilheyra liðnum
Fremst í þessum undirflokki eru leiðbeiningar sem segja til um hvaða gögn eru í flokknum og hvernig skuli vinna með þau, ásamt tilvitnunum í lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð um atriði sem snerta málefni undirflokks þessa sérstaklega.
Áður en hefja má framkvæmdir þarf að skrá byggingarstjóra á verkið. Hann skal tilkynna það byggingarfulltrúa og framvísa hjá honum nauðsynlegum gögnum, eða skilríkjum um að hann uppfylli þau skilyrði sem sett eru um byggingarstjóra, samkvæmt lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð.
Í lögum þessum segir m.a.: „Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma.“
Þar sem byggingarstjóri starfar í umboði eiganda og skal gæta hagsmuna hans gagnvart þeim sem að mannvirkjagerðinni koma, þá er byggingastjóri ráðinn til þess starfs af eiganda, en ekki af verktaka þeim sem samið er við um byggingarframkvæmdir, enda er verktakinn einn af þeim sem að mannvirkjagerðinni kemur.
Byggingarstjóri ber ábyrgð á að framkvæmt sé í samræmi við samþykktar teikningar og lög og reglugerðir.
Í þessum kafla er að finna eyðublöð til að nota við skráningu á byggingarstjóra, til skráningar á byggingarstjóraskiptum og til að nota við gæðastjórnun byggingastjóra.
Byggingarstjóri staðfestir ábyrgð sína með undirritun sinni sem byggingastjóri verksins.
Eftir að skráningarblað þetta hefur verið fyllt út er það prentað út, undirritað og lagt fyrir byggingarfulltrúa.
Þegar byggingarstjóri hefur verið samþykktur af öllum viðkomandi aðilum, leggur hann fyrir byggingarfulltrúa lista yfir þá iðnmeistara sem hann hyggst ráða til verksins, og má nota meðfylgjandi eyðublað til þess, enda uppfylli þeir kröfur í skipulags- og byggingarlögum um réttindi til að standa fyrir verkum í sínu fagi. Hætti iðnmeistari umsjón með framkvæmdum áður en verki er lokið, skal byggingarstjóri sjá um og bera ábyrgð á, að nýr iðnmeistari taki við störfum hans án tafar og á því að tilkynna það byggingarfulltrúa.
Hætti byggingarstjóri á meðan á framkvæmdum stendur, ber eigandi ábyrgð á því að nýr byggingarstjóri taki við störfum án tafar og á að tilkynna það byggingarfulltrúa.
Framkvæmdir við þá verkþætti sem fráfarandi byggingarstjóri bar ábyrgð á og hafði umsjón með, skulu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu. Skal gera úttekt á þeim verkþáttum sem fráfarandi byggingarstjóri hafði umsjón með og skal úttekt undirrituð bæði af fráfarandi byggingarstjóra og hinum nýja, ef þess er kostur. Nýr byggingarstjóri ber ábyrgð á að þeir verkþættir séu unnir á framangreindan hátt, sem unnir eru eftir að hann tekur við starfi.
Nýr byggingarstjóri staðfestir ábyrgð sína með undirritun sinni á tilkynningu þessa.
Hér fylgir einnig eyðublað fyrir slík byggingarstjóraskipti og má skrá þar upplýsingar sem viðkomandi byggingarfulltrúi þarf á að halda til að taka afstöðu til beiðninnar.
Eftir að blað þetta hefur verið fyllt út er það prentað út, undirritað og lagt fyrir byggingarfulltrúa.
Þessum lið fylgja áðurnefndar þrjár gerðir af eyðublöðum, eitt til að nota við skráningu á byggingarstjóra, annað til að nota ef byggingarstjóraskpti verða við framkvæmdina og það þriðja er til nota við gæðastjórnun framkvæmdanna.
GÆÐAHANDBÓK BYGGINGARSTJÓRA:
Gæðastjórnun felst í að tryggja að vörur og þjónusta uppfylli væntingar og kröfur viðskiptavina sem og aðrar kröfur sem gerðar eru, t.d. í lögum og í reglugerðum. Í þessum tilgangi er byggingarstjórum gert að skyldu í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð 112/2012 að vera með gæðakerfi við byggingarstjórn sína.
Gæðakerfin eru annað hvort gæðakerfi fyrirtækis, eða gæðakerfi einstaklings. Ef um er að ræða gæðakerfi fyrirtækis, þá vinna starfsmenn fyrirtækisins undir því gæðakerfi, enda hafi þeir réttindi til þess. Fyrirtækinu ber þá að senda Mannvirkjastofnun lista yfir þá starfsmenn sem vinna undir gæðakerfi þess og þá undir hvaða gæðakerfi þeir vinna.
Gæðakerfi þetta er í tveimur þrepum og er fyrra þrepið gæðakerfið sjálft og það síðara skráning á reynslu af framkvæmd þess á meðan á framkvæmdum stendur. Hvoru þrepi er skipt upp í þrjá flokka, A, B og C. sem innihalda liði með sömu heitum. Fyrra þrepið er gæðakerfið sjálft og það síðara er til að fylgja því eftir í einstökum verkum.
Gæðakerfi þetta er í BYGG-kerfinu í kafla 3.1 Byggingarstjóri og geta notendur kerfisins nýtt sér það óbreytt eða með breytingum og lagt það þannig fyrir Mannvirkjastofnun til samþykktar. Þeir verða þó ætíð færa inn sínar persónulegu upplýsingar, svo sem varðandi menntur og reynslu. Eftir að búið er að færa inn þær upplýsingar og/eða breytingar sem notandi vill gera og þar með kennitölu sína eða fyrirtækisins, þá gildir gæðakerfið þannig um þau verk sem notandinn vinnur við eftir það, þ.e. það sem stendur í þrepi 1, í flokkum A og B. Ekki er hægt að skrá fleiri en eitt gæðakerfi undir sömu kennitölu.
Munurinn á flokkum A og B er sá að þættir í flokki A, ásamt fylgigögnum, eru eingöngu í gæðakerfinu sjálfu, á meðan fylgigögn í flokki B eru aðallega vistuð í BYGG-kerfinu, en opnað á aðgang að þeim í gæðakerfinu. Þetta er gert til að vera ekki með sömu gögnin á fleiri en einum stað í BYGG-kerfinu, sem sparar vinnu, og gagnapláss og eykur öryggið í meðferð gagnanna.
Hugsanlegar sérkröfur í flokki C fylgja ekki sjálfkrafa, enda gilda þær fyrir einstök verk ef þær eru einhverjar.
Bæði gæðakerfið sjálft og eftirfylgni þess skulu vera aðgengileg til eftirlits á vegum Mannvirkjastofnunar eða aðila á vegum stofnunarinnar á meðan á framkvæmdum stendur.
1. Þrep – Gæðakerfið
Eftir að hafa yfirfarið tillöguna sem er í BYGG-kerfinu í kafla viðkomandi byggingarstjóra, fært inn viðbætur og hugsanlegar breytingar, þá prentar hann það út og undirritar og leggur það fyrir Mannvirkjastofnun til samþykktar.
Í reitnum „Tegund gæðakerfis“. er merkt við hvaða grein er um að ræða og hvort um sé að ræða gæðakerfi fyrirtækis eða einstaklings. Eftir að notandi hefur skráð sitt gæðakerfi þá kemur það sjálfkrafa upp næst þegar notandi skráir sig fyrir gæðakerfi byggingarstjóra í verki. Einnig koma sjálfkrafa fram grunnupplýsingar þess verks, sem þá hafa verið færðar í kafla „1.1 Yfirlit yfir verkið“. Einnig skráir hann þar nafn sitt og kennitölu.
Færð er inn dagsetning og hakað við í reit sem er til þess gerður að veita Mannvirkjastofnun aðgang að gæðakerfinu til eftirlits.
Í upphafi er flipinn „Gæðakerfi byggingarstjóra“ sjálfvalinn og kemur þá upp áðurnefnd tillaga að gæðakerfi. Þetta gæðakerfi getur byggingarstjórinn notað ásamt með nánari upplýsingum um sig, breytt lýsingu á gæðakerfinu eða ekki, prentað það út, undirritað og lagt það fyrir Mannvirkjastofnun sem sitt gæðakerfi.
Geri verkkaupi auknar kröfur til byggingarstjóra, sem byggingarstjórinn samþykkir, þá koma þær sem viðbót, en mega ekki á neinn hátt hafa áhrif á það gæðakerfi sem þegar hefur verið samþykkt af Mannvirkjastofnun. Að loknu samþykki þessara aðila verður gæðakerfið hluti af samningi verkkaupa og byggingarstjóra í viðkomandi verki.
2. Þrep – Reynsla af gæðakerfinu
Þetta þrep er til að fylgja gæðakerfinu eftir. Þarna er fylgst með og skráð hvernig byggingarstjórinn fylgir eftir þáttum gæðakerfisins. Þarna skráir hann það sem gæðakerfið gerir ráð fyrir að sé skráð á meðan á framkvæmdum stendur. Þarna eru einnig skráðar athugasemdir verkkaupa og eftirlitsaðila Mannvirkjastofnunar við þá þætti sem þeir aðilar telja ástæðu til að gera athugasemdir við og hvernig tekið er á þeim.
Viðbótargögn sem bætast við á verktíma eru einnig skrá hér undir viðkomandi þætti og vistuð þar. Athugasemdir þessar og viðbótargögn skulu koma fram við útprentun gæðakerfisins í verklok og sýna stöðu verksins á þeim tímapunkti.
Eftirlitsaðilar á vegum Mannvirkjastofnunar skulu hafa aðgang að gæðastjórnunarkerfinu til reglulegra úttekta, eins og segir í verklagsreglum Mannvirkjastofnunar um skoðun þessara gæðastjórnunarkerfa. Þessar úttektir geta leitt til ábendinga eftirlitsaðila um að eitthvað sé áfátt, eitthvað þurfi lagfæringar við innan tiltekis tímafrests eða til kröfu um tafarlausrar lagfæringar.
Skráning í þrepi 2. Er einnig gagn sem má nota ef upp kemur ágreiningur um framkvæmd gæðakerfisins.
DAGBÓK:
Í þessum kafla er svæði sem nefnist Dagbók byggingarstjóra, þar sem byggingarstjóri getur haldið utan um þær upplýsingar sem hann telur ástæðu til á meðan á verki stendur svo sem tíma eftir starfsgreinum, ábendingar og viðbrögð við þeim o.s.frv.. Í dagbók þessa færast sjálfkrafa grunnupplýsingar verksins.