Á árunum 2005 til 2007 voru byggðar helmingi of margar íbúðir á landinu sem varð vegna mikillar eftirspurnar sem stafaði af mikilu framboði af
ódýru lánsfé og almennri velsæld í landinu. Þetta leiddi af sér miklar hækkanir á verði húsnæðis sem hækkaði langt umfram annað verðlag í landinu, eins og sést á meðfylgjandi línuriti.
Þetta hefur nú snúist við og er raunverð íbúða nú um það bil helmingi lægra en það var þegar það var hæst. Ástæðan fyrir þessari lækkun er sú að mikill lager varð til af íbúðarhúsnæði á þessum árum, auk samdráttar í afkomu landsmanna. Þessi lager hefur nú minnkað aftur, um ca. 1 ár, þar sem eingöngu var byggt um 10% af meðaltalsþörf fyrir íbúðir á árinu 2009. Með sama áframhaldi ætti Íbúðalagerinn því að vera uppurinn að 1 til 2 árum liðnum.
Verð á íbúðarhúsnæði er nú töluvert undir nýbyggingarkostnaði og er ekki grundvöllur fyrir framleiðslu á íbúðarhúsnæði á meðan svo er. Byggingarvísitalan hefur t.d. hækkað um 68% frá ársbyrjun 2005 til dagsins í dag á meðan verð á fasteignum hefur hækkað um 37%. Hafi verðlag verið í jafnvægi þá, er verð nú um 20% undir byggingarkostnaði, Áfram verður þörf á nýbyggingum þótt við höfum farið fram úr okkur nú um stundir. Þegar það verður, mun verðið hækka að nýju og endurspegla a.m.k. byggingarkostnaðinn.